Stuðlaberg
1. apr, 2022

Hrynhenda séra Friðriks

Æskulýðsfrömuðurinn séra Friðrik Friðriksson sagðist ekki vera skáld, hann þvertók fyrir það. En skáld var hann samt eins og margir sálmar hans í Sálmabókinni vitna um. Þeirra þekktastur er sennilega „Áfram, Kristsmenn, krossmenn, kóngsmenn erum vér“. Ef hann vanhagaði um sálm til að syngja á næsta fundi hjá KFUM, þá orti hann sálminn sjálfur eða þýddi. Og ef hann vantaði lag til að syngja við sálminn, þá samdi hann það sjálfur og lék á orgel.

Merkasta skáldverk séra Friðriks er trúlega Úti og inni, 100 kvæða kver sem hann orti 1911 í hrynhendum tröllshætti. Hann birti kverið 1912 og aftur í 325 tölusettum eintökum á vegum bókagerðarinnar Lilju 1952. Kvæðin fjalla einkum um félagslíf, knattspyrnu, kristindóm og landgræðslu. Hann las þau fyrir Steingrím Thorsteinsson sem hvatti til útgáfu og las próförk. Honum tileinkaði séra Friðrik kverið.

Hann sýndi það einnig séra Matthíasi, sem birti langa og lofsamlega umsögn um kverið í Austra 6. janúar 1913 og segir þar: „Ritið er í sannleika eitt þeirra fáu, sem ætti að komast inn á hvert heimili. Síra Friðrik á engan sinn líka hér á landi. … Hann er að allra dómi, sem starf hans kunna að meta og elska, hinn mesti skörungur … Sómi og sönn blessun fylgi honum og hans fagra lífsstarfi!“

Friðrik segir sjálfur í fagurlega handrituðum formála endurútgáfunnar 1952:

„Ég hef aldrei fundið til eins mikillar höfundargleði eins og þá, er ég var baksa við að setja fram undir hinum dýra hætti hina nýju uppgötvun mína á fegurð og gildi knattspyrnuíþróttarinnar. Áður stóð þessi leikur fyrir mér sem hringl eitt, sneytt öðru markmiði en því að fá holla hreyfingu í góðu lofti. En á einum vettvangi opnuðust augu mín; það var á æfingu í hinu nýstofnaða knattspyrnufélagi KFUM Val, og ég sá, að þessi íþrótt væri göfug, fögur og sönn list, vellöguð til að hafa heilsusamleg áhrif á allan manninn með líkama, sál og anda til eflingar góðs þroska og menningar. Ég sá, að þessi íþrótt gæti, ef rétt væri á haldið, stutt að kristilegu, hreinu og heilbrigðu æskulífi, gæti eflt fjör og karlmennsku, ósérhlífni, sjálfstamningu og drenglyndi, og þannig lagt traustan grundvöll undir dáðríkt lífsstarf á komandi tíð.“

Kveikjan að lífsskoðun séra Friðriks var kristileg umhyggja fyrir fátæku fólki og vonin um og viljinn til að búa ungu fólki af fátækum heimilum góðan samastað í heilbrigðu félagslífi, íþróttum og söng.

  1. erindi flokksins hljóðar svo:

Áður milli fjarða og fjalla

Í fornöld hlógu birkiskógar.

Þannig aftur Íslands gifta

Á að græða upp dal og hæðir

Berar hlíðar, brekkur auðar

Búast síðar skógarprýði,

Ef vor prúði æskulýður

Orkar að þýða rúnir tíða.