Ofurhuginn
|
Einar Benediktsson (1864-1940). Skáld, ritstjóri, lögfræðingur, embættis- og athafnamaður. Hann stofnaði fyrsta dagblað Íslands, Dagskrá, árið 1896, var sjálfur ritstjóri í tvö ár og skrifaði um stjórnmál, atvinnuvegi, bókmenntir og menningarmál af mikilli snilld. Hann var meðútgefandi Landvarnar 1902, sem kom út í aðeins 10 tölublöðum. Síðar gaf hann út Þjóðina (1914-1915) og ritstýrði henni og stofnaði og kostaði Þjóðstefnu (1916-1917) og Höfuðstaðinn (1916-1917). Árin 1905-1906 fékk hann Marconifélagið til að setja upp og starfrækja loftskeytastöð í Reykjavík. Árin 1908-1921 stundaði hann ýmsa fjármálastarfsemi og fór víða, m.a. dvaldist hann oft í Noregi, fyrst bjó hann í Edinborg, síðan í Kaupmannahöfn (1908-1910), þá í London (1910-1917) og svo aftur í Kaupmannahöfn (1917-1921), en kom heim á milli. Hann fluttist svo aftur heim til Íslands, þar sem hann bjó í Reykjavík næstu árin, þó svo að hann hafi oft verið langdvölum erlendis, m.a. í Þýzkalandi, á Spáni og í Norður-Afríku. Hann stofnaði The British North-Western Syndicate Ltd. (1910) og fossafélagið Titan (1914) með norskum fjárfestum. Eftir heimkomuna 1921 lét hann fara fram rannsóknir á námum í Miðdal, aðallega með málmvinnslu og sementsframleiðslu fyrir augum. Skáldskapur hans birtist í fimm bókum: Sögur og kvæði (1897), Hafblik (1906), Hrannir (1913), Vogar (1921) og Hvammar (1930). Einnig þýddi hann Pétur Gaut eftir Henrik Ibsen (1901). Önnur rit: Nývaltýskan og landsréttindin (1902), Sannleiksgullkorn og fróðleiksmolar (1910), Stjórnarskrárbreytingin og ábyrgð alþingis (ritgerðasafn, 1915) og Thules Beboere (1918), en að auki birtust fjölmargar aðrar greinar eftir hann, sumar nafnlausar, í blöðum og tímaritum, þ.á.m. margar greinar um Grænland í Morgunblaðinu, Tímanum, Vísi og ýmsum tímaritum allan þriðja áratug aldarinnar. Úrval af óbundnu máli Einars er að finna í Laust mál I-II (1952) og Óbundið mál I-II (1980-1982). Ritgerðir hans lýsa framfarahug og ríkri réttlætiskennd. Einar Benediktsson var fyrstur manna lagður í heiðursgrafreit á Þingvöllum og hvílir þar nú ásamt Jónasi Hallgrímssyni.
Lýsing Einars Benediktssonar á svaninum virðist einnig eiga við hann sjálfan (úr Svani í Hrönnum):
Hve sælt, hve sælt að líða um hvolfin heið
með hreina, sterka tóna — eða öngva,
að knýja fjarri öllum stolta strengi,
að stefna hæst og syngja bezt í deyð,
að hefja rödd, sem á að óma lengi
í annars minni, þó hún deyi um leið.
Er nokkur æðri aðall hér á jörð
en eiga sjón út yfir hringinn þröngva
og vekja, knýja hópsins blindu hjörð
til hærra lífs — til ódauðlegra söngva.
Ég birti lag handa blönduðum kór við þetta kvæði Einars Benediktssonar í Tímariti Máls og menningar 2010.