12. feb, 1997

Brautryðjandinn

Jón Sigurðsson (1811-1879). Skjalavörður, lengstum kallaður forseti. Jón lauk 1. og 2. lærdómsprófi frá Háskólanum í Kaupmannahöfn (1833-1834), lagði síðar stund á málfræði, sögu, stjórnfræði og hagfræði, en lauk ekki prófi. Jón varð styrkþegi Árnasafns 1835 og skrifari í stjórnarnefnd þess 1848 og vann samtímis hjá vísindafélagi Dana, Hinu íslenzka bókmenntafélagi og Fornfræðifélaginu, þar sem hann var skjalavörður frá 1845, þar til staðan var lögð niður 1849. Hann stofnaði Ný félagstíðindi með öðrum og stýrði þeim 1841-1873, var forseti Kaupmannahafnardeildar Bókmenntafélagsins 1851-1879 og forseti Þjóðvinafélagsins frá stofnun þess 1871 til æviloka. Jón var þingmaður Ísfirðinga 1845-1879, en sat þó ekki öll árin á þingi, var oftast forseti þingsins. Ritgerðir hans er einkum að finna í Nýjum félagsritum og Andvara, Ant. Tidsskrift, Safni til sögu Íslands og almanaki Þjóðvinafélagsins. Jón lagði mikla rækt við að safna bókum og handritum um Ísland. Bókasafn hans og handrit voru keypt til Íslands fyrir tilstuðlan alþingis (1877). Hann barðist hart fyrir bættum hag Íslands og reyndi mjög að vekja Íslendinga til umhugsunar um ýmis framfaramál, einkum efnahags- og menntamál, og varaði landsmenn við hættunni á því að dragast aftur úr öðrum þjóðum: ,,Eftir því sem Danir vakna, eftir því fer hagur okkar versnandi, ef við vöknum ekki líka.“ Hann var skartmaður, veizluglaður og ræðinn. Hann hafði gaman af góðum mat og góðum vindlum, gaman af því að segja og heyra sögur um náungann. Þá lét hann óspart fjúka það, sem honum bjó í brjósti, til dæmis: ,,Mér skilst, að delirium tremens sé nú farið að verða conditio sine qua non til þess að geta heitið skynsamur maður á voru landi.“

Ritgerðin að neðan birtist sem inngangur að nýju Viðskipta- og hagfræðingatali 1997 enda var höfuðmarkmið textans að kynna Jón forseta til sögunnar sem fyrst hagfræðing Íslands.

Brjóstmynd eftir Brynjulf Bergslien (1871)